Skuldabréfamarkaðurinn brást hressilega við háum verðbólgutölum Hagstofunnar í dag en sem kunnugt er hækkaði vísitala neysluverðs um 1,14% í október þannig að 12 mánaða verðbólga mælist nú 9,7%.

Í Hagsjá kemur fram að við lokun markaða í dag hafði verðtryggð ávöxtunarkrafa lækkað um 6 til 16 punkta frá opnun markaða í 8,4 milljarða króna viðskiptum með íbúðabréf.

Hagfræðideild Landsbankans segir að þó beri að hafa í huga að velta íbúðabréfanna var einnig mjög mikil um miðjan júlí þegar Seðlabankinn var nýbúinn að selja hluta íbúðabréfanna sem ríkissjóði féllu í skaut í bankahruninu fyrir ári, líkt og gert var í gær. Raunar náði verðtryggða kröfulækkunin lengra þar sem krafa skuldabréfaflokks Lánasjóðs sveitarfélaga lækkaði einnig um 17 punkta, að vísu í fremur litlum viðskiptum.

„Áhrif verðbólgumælingarinnar á íbúðabréf má að einhverju leyti kalla fyrirsjáanleg þar sem ávöxtun þeirra er beinlínis tengd vísitölu neysluverðs,“ segir í Hagsjá en hins vegar lækkaði ávöxtunarkrafa ríkisbréfa um 4 til 49 punkta í 10 milljarða króna viðskiptum í dag.

Mest varð hækkunin á styttri enda ríkisbréfanna og virðist sem sú bjartsýni markaðsaðila sem hvatti lækkun kröfunnar í síðustu viku hafi dvínað nokkuð í ljósi svo mikillar verðbólgu.

„Svo virðist sem markaðurinn telji nú minni líkur á vaxtalækkun eða auknar líkur á hægari lækkun vaxta þegar peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku en áður,“ segir jafnframt í Hagsjá.

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam tæpum 22 milljörðum króna í dag.