Hagsmunaárekstrar geta komið upp vegna aðkomu lífeyrissjóða að stjórnum fyrirtækja. Því ættu lífeyrissjóðir að beita sér fyrir því að fyrirtæki sem þeir eiga stóran hlut í setji upp valnefndir um stjórnarkjör. Þetta segir Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs í samtali við Morgunblaðið í dag.

Töluverð umræða var uppi í Viðskiptaráði á síðasta ári vegna aukinna fjárfestinga lífeyrissjóða í íslenskum fyrirtækjum, þátttöku þeirra á hlutabréfamarkaði og aðkomu þeirra að stjórnarmönnum í félögunum. Snerist umræðan t.a.m. um það þegar lífeyrissjóðir fjárfesta í keppinautum á markaði og tilnefna stjórnarmenn i félögin. Hreggviður segir að annars staðar á Norðurlöndum tilnefni lífeyirssjóðir ekki í stjórnir fyrirtækja af ótta við hagsmunaárekstra. Lífeyrissjóðir eigi að vera hlutlausir ávöxtunarfjárfestar.

Hreggviður segir jafnframt að sjóðirnir eigi vissulega að hafa skoðanir á rekstri fyrirtækja og beita sér í þeim efnum. Þeir þurfi þó ekki að gera það í gegnum stjórnarsetu, heldur t.d. á hluthafafundi.