Hagsmunagæsla er áhugavert fyrirbæri. Fyrirtæki, stjórnmálamenn, einstaklingar og samtök hafa öll hagsmuna að gæta og gera það leynt og ljóst. Í sjálfu sér er það ekki óeðlilegt, komi menn til dyranna eins og þeir eru klæddir. Hagsmunagæsla getur verið margslungin, vel útfærð og jafnvel snilldarleg. Hún getur líka verið kjánaleg, vandræðaleg og jafnvel hlægileg. Viðskiptablaðið leit yfir árið og valdi nokkra atburði sem þóttu dæmi um illa heppnaða hagsmunagæslu.

Samkeppniseftirlitið lagði á árinu 370 milljóna króna sekt á Mjólkursamsöluna fyrir alvarlegt brot á samkeppnislögum. Eftir nokkurra daga samfélagsumræðu um einokunarstöðu fyrirtækisins var Guðni Ágústsson fenginn í sjónvarpssett á Eyjunni til að halda uppi vörnum fyrir Mjólkursamsöluna. Sterkasta vopnið voru tölur sem sýndu að verð á mjólkurafurðum hefði hækkað minna en vísitala neysluverðs undanfarin tíu ár.

Allt var það rétt hjá Guðna. Hann gleymdi hinsvegar að minnast á að mjólkurframleiðendur fá 6.614 milljóna framlag frá íslenskum heimilum árlega, að viðbættu óbeinu framlagi í gegnum verndartolla og innflutningshömlur. Vonandi fengu neytendur eitthvað fyrir það framlag sitt.

Nánar er fjallað um málið í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .