Hagsmunagæsla er áhugavert fyrirbæri. Fyrirtæki, stjórnmálamenn, einstaklingar og samtök hafa öll hagsmuna að gæta og gera það leynt og ljóst. Í sjálfu sér er það ekki óeðlilegt, komi menn til dyranna eins og þeir eru klæddir. Hagsmunagæsla getur verið margslungin, vel útfærð og jafnvel snilldarleg. Hún getur líka verið kjánaleg, vandræðaleg og jafnvel hlægileg. Viðskiptablaðið leit yfir árið og valdi nokkra atburði sem þóttu dæmi um illa heppnaða hagsmunagæslu.

Sigurður Ingi Jóhannsson kynnti í lok júní áform um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar. Fleiri stofnanaflutningar hafa verið boðaðir, allir út á land. Kostnaður við flutninginn var verulega vanáætlaður, enginn nema forstjórinn ætlar að flytja með og starfsfólk lítur á áformin sem fjöldauppsögn í miklu samráðsleysi.

Tugir milljóna verða greiddar í biðlaun ef fram fer sem horfir og mjög óvíst er með lagaheimild. Markmiðið með flutningnum var sagt að færa opinber störf út á landsbyggðina. Sennilega er það ekki tilviljun að Framsóknarflokkurinn, með sitt mikla landsbyggðarfylgi, vilji færa sem mest af stofnunum á landsbyggðina.

Kostnaður skattgreiðenda er aukaatriði í þeirri jöfnu.