Með Lissabon-sáttmálanum sem leiðtogar Evrópusambandsins (ESB) undirrituðu síðastliðinn desember - og tekur væntanlega gildi í ársbyrjun 2009 - munu völd Evrópuþingsins aukast á mörgum sviðum, meðal annars í sjávarútvegs-, samgöngu- og landbúnaðarmálum.

Þessi auknu áhrif og völd Evrópuþingsins munu gera það að verkum að það verður bæði erfiðara og flóknara fyrir Ísland að verja hagsmuni sína gagnvart ESB.

Þetta kom fram í máli Díönu Wallis, þingmanni og varaforseta Evrópuþingsins, í fyrirlestri sem hún flutti í morgun um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.

Wallis sagði að nýr sáttmáli ESB eigi eftir að hafa mikil áhrif á framkvæmd lagasetningar og ákvörðunartöku sambandsins - og ekki síður valdajafnvægið innan ESB. Og á þetta á sérstaklega við um Evrópuþingið, að mati Wallis.

Fram kom í máli hennar að Íslendingar gætu vissulega fylgt óbreyttri stefnu gagnvart ESB og látið sem ekkert gefi tilefni til þess að breyta því sem hingað til hefur gefist vel. Hins vegar gæti það reynst kostnaðarsamt og komið niður á hagsmunum Íslands.

Wallis sagði að Íslendingar myndu þurfa í auknum mæli að byggja upp og viðhalda nánum tengslum við einstaka þingmenn og þingmannahópa á Evrópuþinginu, í því augnamiði að tryggja að hagsmunir Íslands verði ekki virtir að vettugi innan ESB. Slíkt gæti reynst tímafrekt, kostnaðarsamt og flókið.

Wallis benti jafnframt á að Lissabon-sáttmálinn myndi veita þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins í fyrsta skipti tækifæri til að hafa áhrif á framkvæmd lagasetningu Evrópuþingsins. Þjóðþingin gætu nú fengið uppköst að frumvörpum sem liggja fyrir Evrópuþingið til skoðunar og mótmælt þeim ef tilefni þætti til. Með öðrum: Gefið þeim gult spjald, sagði Wallis.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra Íslands, spurði Wallis hvort hún teldi að hægt væri að ljúka aðildarviðræðum Íslands og  Evrópusambandsins á innan við ári.

Wallis sagðist hafa hafa heyrt samstarfsmenn sína innan ESB tala um, að vegna náins samstarfs Íslands og ESB á grundvelli EES-samningsins, væri hægt að ljúka slíkum viðræðum á nokkrum mánuðum, enda ætti hún ekki von á því að einhver aðildarríki myndu reyna að tefja viðræðurnar.

_____________________________________

Nánar verður fjallað um fyrirlestur Díönu Wallis í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .