Greiningardeild Arion banka telur það mikið hagsmunamál að lengt verði í skuldabréfi Nýja Landsbankans til þess gamla.

Greiningardeildin bendir á það í Markaðspunktum sínum í dag, að í síðasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans komi fram að afborganir af þessum lánum nemi fjárhæðum sem eru meiri en allar aðrar afborganir lána íslenskra fyrirtækja eftir árið 2014.

Þá er bent á að öðru óbreyttu þyrfti Nýi Landsbankinn því á næstu árum að safna miklu magni gjaldeyris til að mæta afborgunum í erlendri mynt, eða treysta á Seðlabankann og forða hans í þeim efnum. Því er mjög áhugavert að heyra að bankastjóri Landsbankans vonist til að hægt verði að lengja skuldabréfið um 10-20 ár, eins og fram hefur komið í fréttum RÚV.

Gjaldeyrisþörf Landsbankans myndi snarminnka á næstu árum ef framlengingin myndi ná í gegn og að öðru óbreyttu draga úr þrýstingi á gengi krónunnar og telur greiningardeildin að þetta gæti valdið straumhvörfum.

Áhrifin munu koma fljótt fram, að mati greiningardeildarinnar, þrátt fyrir að enn sé nokkur tími í næstu höfuðstólsgreiðslu (árið 2015), þar sem Landsbankinn þarf ekki lengur að einbeita sér í jafn ríkum mæli að gjaldeyrissöfnun og áður. Hversu sterk áhrifin verða er erfitt að segja til um í dag, þar ekki er vitað með vissu hversu umsvifamikill bankinn hefur verið á gjaldeyrismarkaði á síðustu árum. Þó er ljóst að um fjármuni er að ræða sem gætu hlaupið á milljörðum eða milljarðatugum.

Því er það mat greiningardeildarinnar að endurfjármögnun á skuldabréfunum gæti valdið straumhvörfum í þróun gengis krónunnar, innan hafta að sjálfsögðu, þannig að ekki væri jafn brýn þörf og áður á veikingu krónunnar.