Félag atvinnurekenda hefur sent öllum flokkum sem náðu kjöri á Alþingi ályktun stjórnar FA. Þar eru talin upp tíu hagsmunamál minni og meðalstórra fyrirtækja sem að ætti að hafa í huga við gerð stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þetta kemur fram í frétta á vef Félags atvinnurekenda .

Hér má sjá útlistun á tíu hagsmunamálum fyrirtækjanna;

  • Aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum til að styðja við peningamálastefnu Seðlabankans. Stöðugleiki, þar sem verðbólgumarkmið nást og vextir halda áfram að lækka, er stærsta hagsmunamál fyrirtækjanna.
  • Átak verði gert í því að einfalda regluverk atvinnulífsins og hrinda í framkvæmd áformum um að tilkynningaskylda fyrirtækja komi í stað flókinna og dýrra leyfisveitinga. Sett verði regla um að við innleiðingu Evrópureglna í íslenska löggjöf verði engum íþyngjandi reglum fyrir atvinnulífið bætt við nema með sérstökum rökstuðningi.
  • Búvörusamningar verði endurskoðaðir í breiðri sátt bænda, neytenda og atvinnulífs. Stuðningskerfi landbúnaðarins verði breytt og tollar lækkaðir í samræmi við tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.
  • Leitað verði leiða til að tryggja aðgengi fiskvinnslu án kvóta eða eigin útgerðar að hráefni til vinnslu. Stefna ætti að afnámi tvöfaldrar verðmyndunar í sjávarútvegi, meðal annars með því að lögfesta milliverðlagningarreglur um innri viðskipti lóðrétt samþættra útgerðar- og vinnslufyrirtækja.
  • Haldið verði áfram að lækka tryggingagjald fyrirtækja í áföngum.
  • Eftirlitsgjöld sem ríkið leggur á fyrirtæki verði tekin til heildarendurskoðunar. Gjaldtakan af hverju fyrirtæki fyrir sig endurspegli raunkostnað við eftirlitið sem að því beinist.
  • Gert verði átak í því að ríkisstofnanir fari að lögum um opinber innkaup og bjóði út kaup á vörum og þjónustu.
  • Stjórnvöld fari að tilmælum Samkeppniseftirlitsins um að afnema samkeppnishömlur, til dæmis í landbúnaði, sjávarútvegi og millilandaflugi. Samkeppniseftirlitið verði eflt. Tekið verði upp samkeppnismat að tillögu OECD.
  • Hömlur verði settar á samkeppni ríkisfyrirtækja á borð við Isavia og Íslandspóst við einkarekin fyrirtæki.
  • Átak verði gert í gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki, ýmist tvíhliða eða á vettvangi EFTA.

Birgir S. Bjarnason, formaður Félags atvinnurekenda, skrifar undir bréfið og segir í niðurlagi að það sé von hans að flokkarnir taki upp þessi hagsmunamál fyrirtækjanna í landinu til skoðunar og haldi þeim til haga í mögulegum viðræðum um stjórnarsamstarf.