Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara hafa sent frá sér ályktun þar sem samtökin gagnrýna harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hækkun elli- og örorkulífeyris í kjölfar nýgerðra kjarasamninga og telja hana of litla.

Í ályktuninni segir að það skjóti skökku við að þegar markmið kjarasamninganna var að bæta kjör þeirra verst settu í þjóðfélaginu hækki bætur lífeyrisþega aðeins um 4%, sem jafngildi kr. 4.000-5.000 hækkun á lægstu bótum.

Bent er á að í kjarasamningunum náðu aðildarsamtök ASÍ og SA samkomulagi um hækkun lægstu launa um 18.000 kr. á mánuði. Í ljósi þess sé 4% hækkun lífeyris of lítil.

Alþýðusambandið, Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara krefjast þess svo að lokum að ríkisstjórnin hækki bætur almannatrygginga til jafns við kjarasamninga, þ.e. um 18.000 kr. fyrir þá sem eru á lægstu bótum.