Vöruviðskipti í októbermánuði voru hagstæð um 1,5 milljarða króna en á sama tíma í fyrra reyndust þau óhagstæð um 4 milljarða króna, ef miðað er við gengi hvors árs.

Ef horft er til fyrstu tíu mánuða ársins þá var hallinn á vöruviðskiptum landsins 88,1 milljarður króna sem er aukning um 67 milljarða frá 21,1 milljarða halla á sama tímabili í fyrra.

Lægra álverð og minna verðmæti sjávarafurða

Í októbermánuði þessa árs voru fluttar út vörur fyrir tæpa 49,2 milljarða króna en inn fyrir rúma 47,6 milljarða króna, samkvæmt tölum Hagstofunnar .

Fyrstu tíu mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 454,9 milljarða króna en inn fyrir 543,0 milljarða króna. Verðmætið var 71,6 milljörðum króna lægra, eða 13,6% lægra en á sama tíma árið áður, það er ef miðað er við gengi hvors árs.

Lægra álverð hafði mikið að segja um að verðmæti iðnaðarvara var 19,6% lægra en á sama tíma í fyrra, en þær voru 49,8% alls útflutnings. Sjávarafurðir, sem voru 43,9% alls vöruútflutnings, voru 9,9% lægri að verðmæti en árið áður.

Einnig var verðmæti vöruinnflutnings lægra en árið áður, þó það væri ekki nema 0,9% lægra, eða 4,7 milljörðum króna lægra en á sama tímabili árið áður.

Dróst aðallega innflutningur á hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti saman en innlutningur á flutningatækjum jókst á móti.