Undanfarin misseri hefur fjármálakerfið búið við afar hagstæð ytri skilyrði, segir í Fjármálastöðugleika , riti Seðlabanka Íslands. Þar kemur fram að frátalinni lausafjárhættu sem óhjákvæmilega fylgir losun fjármagnshafta eru líkur á áföllum sem gætu raskað stöðugleika fjármálakerfisins með minnsta móti.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, skrifar formála ritsins, en þar er upptalning á þessum hagstæðu ytri skilyrðu sem minnst er á. Þar með talið er þróttmikinn hagvöxtur, minna atvinnuleysi, vöxt ráðstöfunartekna heimilanna og góðan hagnað fyrirtækja.

Einnig bendir hann sérstaklega á það að heimili og fyrirtæki hafa nýtt hinar hagstæðu aðstæður til þess að draga úr skuldsetningu og bæta eiginfjárstöðu.

Dregur úr áhættu við losun hafta

„Álagspróf á laust fé benda  til þess að lausafjárhlutfall bankanna verði yfir reglubundnu lágmarki Seðlabankans jafnvel
þótt verulegt fjármagnsútstreymi yrði eftir losun fjármagnshafta.

Lánskjör banka og annarra innlendra aðila á erlendum lánsfjármörkuðum hafa batnað. Það bendir til þess að aðgangur
þeirra að erlendu lánsfé sé greiður, sem einnig dregur úr áhættu við losun fjármagnshafta,“ ritar Arnór einnig í formálanum.

Vaxandi spenna á vinnu- og húsnæðismarkaði

Arnór bendir á að vaxandi spennu gætir bæði á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði, en að mati Seðlabankans gæti það boðað aukna áhættu í fjármálakerfinu í framtíðinni. Því er að mati Seðlabankans nauðsynlegt að fylgjast vel með þróuninni á þessum mörkuðum.

Þessu til rökstuðnings bendir Arnór á að raunverð bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hafi hækkað hratt og er orðið hátt í sögulegu samhengi. Gangi áfram um spár um áframhaldandi hækkun þá telur Seðlabankinn að þetta gæti leitt til þess að verðfall geti leitt til bakslags í efnahagslífsins.

Vöxtur ferðamannaþjónustu áhættuþáttur

Arnór bendir einnig á að annar áhættuþáttur sem ber að fylgjast náið með sé hinn einstaki vöxtur ferðaþjónustu, sem hefur að mati Seðlabankans drifið áfram hagvöxt og hækkun krónunnar að miklu leyti.

Þrátt fyrir að útlánavöxtur sé í heildina litið hægur þá hafa útlán til þessa geira vaxið mjög ört. Hann bendir jafnframt á það ef bakslag verði í komu ferðamanna, t.d. vegna hækkunar olíuverðs eða náttúruhamfara gæti orðið útlánatöp í greininni.

Mikilvægt að fjármálafyrirtæki varðveiti viðnámsþrótt

Að lokum segir í formála ritsins að: „Mikilvægt er að fjármálafyrirtæki varðveiti viðnámsþrótt sinn við hinar hagstæðu ytri aðstæður sem nú ríkja, þannig að þau  hafi  burði  til  að  standast  bakslag  í  efnahagslífinu  síðar  án  þess  að  starfsemi  þeirra truflist verulega.

Fjármálastöðugleikaráð hefur því, að fenginni tillögu kerfisáhættunefndar, mælt með  því  að  Fjármálaeftirlitið  auki  sveiflujöfnunaraukann  um 0,25  prósentur.  Er  það  gert  með  það  markmið  í  huga  að  aukinn  verði  til  staðar  að  fullu  þegar fjármálasveiflan  nær  hámarki.“