Ekki borgar sig fyrir lífeyrissjóði að kaupa húsnæði sem fyrir er í borginni, heldur hentar betur að byggja nýjar leiguíbúðir. Þetta er niðurstaða vinnuhóps Landssamtaka lífeyrissjóðanna og fréttastofa RÚV greinir frá. Unnið er að viðskiptalíkani út frá þessari hugmynd.

Landssamtök lífeyrissjóða komu á fót vinnuhópi eftir samkomulag við stjórnvöld í desember þar sem samtökin skuldbundu sig til að taka þátt í vinnu við að endurskoða húsnæðisstefnuna. Hópurinn hefur skoðað hvort lífeyrissjóðir geti komið inn á íbúðamarkaðinn með því að eiga húsnæði og leigja það.

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, er í forsvari fyrir hópinn. Hann segir í samtali við RÚV að hópurinn hafi komist að niðurstöðu sem lögð var fyrir stjórn Landssamtakanna í gær. Hann segir að ef ferlið á að vera hagkvæmt sé augljóslega skynsamlegt að byggja húsnæði. „ Þá velur þú staðsetningu, þá velur þú gerð húsnæðisins og þú býrð til ákveðinn klasa sem verður auðveldari í rekstri,“ segir Þorbjörn. Hann segir að sú greining sem hefur verið unnin gefi til kynna að ekki væri hagkvæmt að nýta það húsnæði sem fyrir er.

Hann segir mikinn kostnað fylgja því að eiga eignir sem eru dreifðar um borgina og þær sem fyrir eru séu ekki endilega af hentugri stærð til að leigja.

Frétt RÚV .