Í upphafi þessa mánaðar tóku gildi breytingar á mótframlagi vinnuveitenda í lífeyrissjóði. Hafa launþegar nú val um að ráðstafa hluta af mótframlagi vinnuveitenda í nýja tegund sameignar sem kallast tilgreind séreign, eða greiða áfram í samtryggingu. Byggja breytingarnar á samkomulagi ASÍ og SA um að hækka mótframlag atvinnurekenda um 3,5 prósentustig í áföngum.

Í samtali við fréttastofu Rúv segir Þórhallur B. Jósepsson, sérfræðingur hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna að tilgreind séreign sé yfirleitt ákjósanlegri fyrir eldra fólk á meðan yngra fólki sé oftast hagstæðara að greiða áfram sem mest í samtryggingu. Segir Þórhallur að hjá yngra fólki þurfi yfirleitt að huga að afkomutryggingu en þegar fólk sé komið yfir ákveðin aldur sé gráupplagt að safna sér í sjóð sem auðveldar fólki að fara af vinnumarkaði þegar þar að kemur og á hann þar við tilgreinda sameign.

Hann segir aftur á móti að samtrygging sé öruggari kostur fyrir yngra fólk sem er að byggja upp fjölskyldu. Það sé venjulega öruggara að afla sér tryggingarréttinda heldur en að byggja upp sjóð. „Sá sjóður væri mjög fljótur að klárast í áföllum en réttindin, sem fólk ávinnur sér í samtryggingu, geta enst ævilangt,“ segir Þórhallur.

Ef launþegar kjósa að greiða í tilgreinda séreign þarf að velja það sérstaklega og þarf þá að hafa samband við lífeyrissjóð. Ef ekkert er valið verður mótframlag atvinnurekenda áfram greitt í samtryggingu.