Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist í samtali við Viðskiptablaðið vera ánægður með lokið hafi verið verið raforkusölusamning fyrirtækisins til United Silicon, vegna kísilmálmverksmiðju í Helguvík. „Við erum ánægðir með að þessi samningur sé fullgildur. Það hefur verið unnið að honum í nokkuð langan tíma. Við höfum í nokkuð mörg ár verið að tala við aðila sem hafa haft áhuga á að byggja upp í Helguvík. það er þvi mjög ánægjulegt að nú sé sá fyrsti að fullgera samning og muni innan skamms ráðast í framkvæmdir.“

Hann segir gleðiefni fyrir Íslendinga að fá kísilmálmiðnað til landsins. „Þetta er áhugaverð iðngrein sem er vel til þess fallin að auka fjölbreytileikann.“

Aðspurður segir Hörður að samningurinn muni styrkja Landsvirkjun enn frekar. „Þetta eykur fjölbreytileikann í okkar viðskiptamannahópi og gerir okkur kleift að nýta alla þá orku sem við eigum í kerfinu. Það er jákvætt og mun styrkja félagið. Þetta sýnir líka að það er eftirspurn eftir orku á Íslandi. Við teljum að eftirspurn verði meira en framboð í framtíðinni sem teljum að sé mjög áhugaverð staða fyrir raforkuframleiðendur og íslensku þjóðina.“

Hörður segir að um langtímasamning sé að ræða. „Þessir samningar sem við erum að gera núna eru á bilinu svona 15-20 ár. Þetta er þvi langtímasamningur sem er hagstæður fyrir báða aðila.“