Í sumum tilvikum er ódýrara að taka yfirdráttarlán hjá banka til að fjármagna kaup en að taka vaxtalaus kortalán. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Kortanotkun Íslendinga hefur aukist talsvert síðustu misseri og einnig hefur færst í vöxt að fólk taki svokölluð kortalán, en það eru lán sem bera enga vexti. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins voru nokkur slík lán borin saman við hefðbundin yfirdráttarlán í banka og kemur í ljós að í mörgum tilvikum er hagstæðara að taka yfidrátt en að nýta sér lán sem sögð eru vaxtalaus. Ástæðan er sú að þrátt fyrir enga vexti koma ýmis önnur gjöld til sögunnar, sem taka þarf með í reikninginn.

Breki Karlsson, forstöðumaður stofnunar um fjármálalæsi, sagði í samtali við Morgunblaðið að í mörgum tilvikum séu lán þeim mun óhagstæðari eftir því sem auðveldara er að taka þau. Tengist það umfjöllun VB.is í morgun, en þar var sagt frá því að smálánafyrirtæki hafi verið sektuð fyrir að rukka viðskiptavini um of háan lántökukostnað.