Greiningardeild Íslandsbanka segir það hagstæðara að byggja heldur en að kaupa húsnæði vegna mikilla verðhækkana á húsnæðismarkaði undanfarna mánuði.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 40% í síðasta mánuði, miðað við júlímánuð í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins. Tölur Hagstofu Íslands gefa hins vegar til kynna að byggingarkostnaður hefur einungis aukist um 3,7% á sama tímabili.

?Hagur byggingaraðila hefur því vænkast umtalsvert á stuttum tíma og leiðir til vaxandi framboðs," segir greiningardeild Íslandsbanka.

Húsnæðisverð hækkaði um 3,4% á milli mánaða í júlí. Greiningardeildin telur þó að draga muni úr hækkunum á næstu mánuðum.

?Íbúðaverð hefur verið helsti verðbólguvaldurinn hér á landi að undanförnu og því verður spennandi að fylgjast með þróuninni á næstunni. Sennilega mun draga úr hækkun íbúðaverðs á næstu mánuðum og verðbólga ef til vill hjaðna eitthvað af þeim sökum í lok ársins. Íbúðaverð mun líklega hækka áfram fram á næsta ár."