Í Vorskýrslu Hagdeildar ASÍ, endurskoðaðri spá um þróun helstu hagstærða á þessu ári og því næsta, er gert ráð fyrir miklum hagvexti en jafnframt vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu. Viðskiptahalli mun áfram verða mikill og grafa undan krónunni. Því má búast við mikilli veikingu hennar á næstu tveimur árum. Afleiðingin verður vaxandi verðbólga og skertur kaupmáttur. Auk endurskoðaðrar spár um þróun helstu hagstærða, fjallar vorskýrslan um þróun húsnæðismarkaðarins.

Greint er frá skýrslunni í frétt á vef ASÍ en þar segir að til að forðast harkalega lendingu í hagkerfinu í lok stóriðjuframkvæmdanna er þörf á breyttri hagstjórn. ASÍ hefur ítrekað kallað eftir ábyrgri hagstjórn og þá sér í lagi meira aðhaldi í fjármálum ríkisins. OECD gagnrýnir hagstjórnina einnig í nýútkominni skýrslu sinni og bendir á að til þess að koma í veg fyrir alvarlega kreppu við lok stóriðjuframkvæmda þurfi að auka aðhald í ríkisfjármálum, ekki síður en í peningamálum. Það eru því allar líkur á að hagstjórnarmistökin frá 1999 ? 2002 verði endurtekin og verðbólga fari úr böndunum með tilheyrandi skerðingu á kjörum almennings.

Miklar hækkanir á húsnæðismarkaði hafa sett sterkan svip á allt þjóðlífið og haft mikil áhrif á efnahagslífið. Íbúðaverð hefur hækkað mikið að undanförnu. Sem dæmi hefur verð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 34% síðastliðna 12 mánuði.

Í skýrslu ASÍ segir að þriðjungshækkun á fasteignaverði þýði að kaupendur verða í dag að taka mun hærra lán en þeir þurftu fyrir ári síðan til að kaupa samskonar íbúð. Staða þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn er nú verri en hún var fyrir ári, þar sem hækkun á húsnæðisverði gerir meira en að éta upp allan ávinning þeirra af lækkun vaxta. Áhrifin á félagslega húsnæðiskerfið koma m.a. fram í því að þeir sem áður nutu sérstakra 90% lána hjá Íbúðalánasjóði, hafa margir hverjir verið verðlagðir út af húsnæðismarkaðnum, þrátt fyrir að þeim standi enn til boða sama lánshlutfall og áður. Þá mun hækkun húsnæðisverðs leiða til hærri húsaleigu og/eða fækkunar leiguíbúða. Að lokum hafa hræringarnar á íbúðamarkaðnum og fasteignalánamarkaðnum aukið á ójafnvægið í hagkerfinu, á sama tíma og þensla vegna stóriðjuframkvæmda er að ná hámarki.