Íslenska krónan er lítil örmynt en hún er ekki gagnslaus og ónytsamleg að mati Valdimars Ármanns, sérfræðings hjá GAM Management.

Valdimar skrifar grein í nýjasta tölublað Viðskiptablaðsins þar sem hann spyr hvort Ísland hafi þjáðst af hollensku veikinni. Hann segir að til að mynda hefði Seðlabankinn átt að berjast gegn áhrifum jöklabréfaútgáfu með því að vera mótaðili þeirra þ.e. að hann átti að taka gjaldeyrinn inná sig í staðinn fyrir að hleypa honum inná almennan markað sem olli of mikilli styrkingu á gengi krónunnar. Í staðinn fyrir að safna gjaldeyri í sjóð hafi honum verið eytt í óhóflega neyslu og óarðbærar fjárfestingar.

Hömlulaust innflæði á ódýru lánsfjármagni

Í þessu samhengi fjallar Valdimar um íslensku krónuna.

„Það má ekki dæma krónuna gagnslausa útfrá hegðun hennar undanfarin ár heldur verður að líta á heildarmyndina og sjá að það var hagstjórnin og peningastefnan sem olli því að íslensku krónunni var í raun og veru rústað.

Með því að leyfa hér hömlulaust innflæði á ódýru erlendu lánsfjármagni á sama tíma og mikil uppbygging og aukin nýting á endurnýtanlegum orkugjöfum var í gangi með óeðlilega mikilli styrkingu á raungengi íslensku krónunnar var verið að leggja grundvöllinn að dauðadómi krónunnar.

Mjög fáar myntir í heiminum búa við algjörlega frjálst flæði fjármagns og er það í rauninni bundið við allra stærstu myntir heimsins. Með frjálsu flæði fjármagns er ekki verið að tala um fjármagn vegna innflutnings og útflutnings, þ.e. stundarviðskipti (e. spot), heldur frekar vegna afleiðusamninga og spákaupmennsku," segir í greininni.

Gjaldmiðillinn stýri ekki hagkerfinu

Valdimar segir að okkur væri nær að líta til landa í Asíu og Suður-Ameríku og sjá hvernig hægt er að halda úti eigin gjaldmiðli með einhvers konar reglum sem t.a.m. lágmarka spákaupmennsku og stöðutöku þannig að gjaldmiðillinn endurspegli betur undirliggjandi hagkerfi.

Í lokin segir: „Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að draga upp eftiráskýringar en nauðsynlegt er að skilja mistökin sem gerð voru til að þau verði ekki endurtekin. Margir virðast vilja beita sama meðali áfram og því sem olli hruni krónunnar þ.e. aukin erlend lántaka, hátt vaxtastig, sterk íslensk króna ásamt óheftu flæði fjármagns hvort sem það er vegna stundarviðskipta eða afleiðusamninga. Hollensku veikinni er þannig viðhaldið og Ísland siglir sömu leið og áður."