Hagstofa Íslands var rekin með 53,5 milljóna króna halla árið 2015 en var með 37,9 milljóna króna tekjuafgang árið 2014. Í Ársskýrslu Hagstofunnar kemur fram að hallinn skýrist einkum af hærri launakostnaði auk þess að sértekjur hafi ekki verið eins miklar og áætlað hafi verið. Þá hafi Hagstofan fengið heimild til að ganga á eigið fé og fjármagna með því heilsufarsrannsókn.

Heildartekjur Hagstofunnar árið 2015 námu 1.192 milljónum króna, þar af var framlag úr ríkissjóði 1.049 milljónir króna og sértekjur 143,2 milljónir króna. Framlag úr ríkissjóði hækkaði um 5,7% á milli ára.

Heildargjöld ársins voru 1.246 milljónir króna og hækkuðu um 10,1% á milli ára, en þar af nam launakostnaður 1.010 milljónum króna, eða 81,1% af útgjöldunum í heild. Launakostnaður hækkaði um 15,1% á milli ára vegna kjarasamninga og úrskurðar gerðardóms um laun á árinu 2015, auk þess sem starfsmönnum fjölgaði.