Hagstofan mun hér eftir halda utan um gerð ferðaþjónustureikninga. Mikil vöntun hefur verið á tölfræði er varðar efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar og samanburður við önnur lönd verið erfiður. Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála og Ólafur Hjálmarsson Hagstofustjóri skrifuðu í dag undir samning þessa efnis og er hann til þriggja ára.

Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að markmiðið með samningnum sé að tryggja að hægt verði að meta efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir íslenskt efnahagslíf þannig að samanburður fáist á vægi hennar milli landa. Ferðaþjónustureikningar (Tourism Satellite Accounts) eru unnir samkvæmt aðferðafræði TSA og taka þeir til neyslu og framleiðslu í ferðaþjónustu, framleiðsluvirði, fjárfestingu, samneyslu og fleiri þátta sem viðkoma reikningunum.