Hagstofa Íslands fylgist ekki lengur með áfengissölu, að því er fram kemur í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, um sölu og neyslu áfengis.

Í fyrirspurninni spyr Siv hvort það sé rétt að Hagstofan hafi hætt slíkri upplýsingaöflun nýlega. „Í mörg ár og fram til ársloka árið 2007 birti Hagstofa Íslands árlega tölur um sölu og neyslu áfengis. Við eftirgrennslan fyrr á þessu ári greindi hagstofustjóri velferðarráðuneytinu frá því að í kjölfar niðurskurðar á útgjöldum til hagskýrslumála hafi Hagstofa Íslands ákveðið að hætta söfnun upplýsinga um áfengissölu,“ segir í svarinu.

Framleiðendum, innflytjendum og heildsölum áfengis er þó skylt að afhenda Hagstofunni upplýsingar um áfengssölu og framleiðslu, ef farið er fram á slíkt.

„Hagstofustjóri greindi velferðarráðuneytinu frá því að í kjölfar niðurskurðar á fjárheimildum hafi Hagstofa Íslands, líkt og aðrar stofnanir, þurft að fækka starfsfólki og forgangsraða verkefnum. Enn fremur hefur komið fram að Hagstofan hafi ákveðið að hætta söfnun upplýsinga um áfengissölu því ekki séu lagalegar eða alþjóðlegar skuldbindingar sem krefjast þess að það sé gert. Enn er þó í gildi reglugerð sem gerir framleiðendum, innflytjendum og heildsölum áfengis skylt að afhenda Hagstofunni upplýsingar um áfengissölu og framleiðslu ef farið er fram á slíkar upplýsingar.

Með hliðsjón af framangreindu hefur velferðarráðherra óskað eftir því að fá upplýsingar frá Hagstofunni um umfang þeirrar upplýsingasöfnunar sem hún hefur staðið að varðandi sölu og neyslu áfengis. Síðan mun velferðarráðherra skoða með þar til bærum yfirvöldum hvort koma megi upplýsingasöfnuninni aftur á eða jafnvel hvort koma megi henni við annars staðar í stjórnkerfinu,“ segir í svarinu .