Eftir hrun, eða árið 2009, hætti Hagstofa Íslands að greina nákvæmlega ferðaþjónustuna. Það gerði hún vegna niðurskurðar á fjárveitingum til stofnunarinnar. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir að þetta sé afar slæmt ekki síst þar sem ferðaþjónustan sé orðin ein af stærstu og mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Gjaldeyristekjur í ferðaþjónustu hafa aukist mikið síðustu árin og námu þær tæpum 238 milljörðum króna árið 2012. Það gerir um fjórðung af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

„Það er alveg með ólíkindum að ferðaþjónustureikningum séu ekki gerð skil sérstaklega,“ segir Helga. „Til þess að geta greint umfang þessarar atvinnugreinar er það alveg nauðsynlegt. Þessu var hætt í sparnaðarskyni árið 2009 og fyrir vikið vitum við ekki grunnupplýsingar um þessa atvinnugrein. Við höfum barist fyrir því að þessi greining verði ein af lögbundnum verkefnum Hagstofunnar, en þó að Hagstofan hafi sinnt þessu vel þar til árið 2009 var þetta verkefni aldrei lögbundið eins og ýmis önnur verkefni stofnunarinnar.“

„Við þurfum þessar upplýsingar,“ segir Helga. „Það er í raun ótrúlegt að við skulum búa við það að geta til dæmis ekki sagt með nákvæmum hætti hversu margir starfa í ferðaþjónustu – svo ég taki dæmi. Í skýrslu sem kom út síðasta sumar kom fram að innan við 1% af öllu opinberu rannsóknarfé atvinnuveganna fór í rannsóknir og greiningu á ferðaþjónustunni. Það er algjörlega óviðunandi.“ Ragnheiður Elín segist vita af áhyggjum ferðaþjónustunnar vegna þessa máls.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .