Hagstofa Íslands spáir því að hagvöxtur á þessu ári verði um 1,9% og 2,7% árið 2014. Þetta er töluvert minni hagvöxtur en Hagstofan spáði fyrir um í nóvember síðastliðnum, en þá spáði hún því að hagvöxtur árið 2013 yrði 2,5%. Í nóvemberspánni spáði hún því reyndar líka að hagvöxtur árið 2012 yrði 2,7%, en samkvæmt nýjustu tölum var hagvöxtur í fyrra aðeins 1,6%.

Í þjóðhagsspánni sem birt segir m.a. að aukning einkaneyslu verði minni í ár en í fyrra og að fjárfesting dragist saman um 2,3%. Á næsta ári er gert ráð fyrir að einkaneysla taki betur við sér og aukist um 3% en að fjárfesting aukist um 16,9%. Samneysla stendur því sem næst í stað 2013 og 2014 en eykst hægt eftir það.

Vöxtur einkaneyslu og bati á vinnumarkaði var góður á fyrri helmingi 2012, en slakari á seinni hluta 2012. Verðbólguhorfur eru stöðugar en viðskiptakjör hafa versnað.