Fyrir viku síðan greindi Hagstofa Íslands frá því, að hún hafi gert mistök við útreikning reiknaðrar húsaleigu, sem mælir kostnað við búsetu í eigin húsnæði og endurspeglar að mestu verðþróun á íbúðamarkaði. Reikningsskekkjan, sem var af manna völdum, fólst í eins mánaðar tímatöf í útreikningi reiknaðrar húsaleigu í mars. Þar sem Hagstofan leiðréttir ekki fyrri mæligildi var tímatöfin leiðrétt með tveggja mánaða verðbreytingu reiknaðrar húsaleigu inn í mæligildi september.

Reiknuð húsleiga hækkaði því raunverulega um 3,3% í september, og er um að ræða mestu hækkun í þeirri stærð frá því í apríl 2005. Reiknuð húsaleiga er liður í vísitölu neysluverðs (VNV), sem þýðir að mæliskekkja var í vísitölunni á milli mars og ágúst.

Opinberar spár greiningaraðila um mánaðarbreytingu VNV voru á bilinu 0-0,3%. Án leiðréttingar Hagstofunnar hefði mánaðarbreytingin verið 0,21%. Raunveruleg hækkun milli mánaða var hins vegar 0,27% hærri eða 0,48% vegna hækkunar reiknaðrar húsaleigu, og leiðrétt verðbólga í september 1,8% miðað við 0,9% óleiðrétta verðbólgu í ágúst.

Verðbólguþrýstingur á íbúðamarkaði og verðbólga hafa því verið kerfisbundið vanmetin af hálfu Hagstofunnar undanfarið hált ár, og eru báðar stærðir vel umfram væntingar. Vert er þó að minnast á, að án húsnæðis mælist 0,4% verðhjöðnun, sem skýrist helst af lækkun á innfluttum vörum.

Leiðrétting Hagstofunnar fór eins og eldur í sinu um íslenskt efnahagslíf síðustu tvo dagana í september, enda verðbólga ein mikilvægasta hagstærð hagkerfisins. Verðbólguálag hækkaði á skuldabréfamarkaði og vaxtakrafa óverðtryggðra skuldabréfa sömuleiðis. Bankarnir breyttu stýrivaxtaspám sínum úr því að þeir yrðu lækkaðir í að þeir haldist óbreyttir.

Skiptar skoðanir eru um það hversu víðtæk áhrifin hafa verið eða kunna að verða, og hverjir gætu hafa orðið eða koma til með að verða fyrir fjárhagslegu tjóni í kjölfar leiðréttingarinnar. Í því sambandi vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort að Hagstofan eða íslenska ríkið séu skaðabótaskyld í þessu máli.

Verðtryggðar skuldbindingar vanreiknaðar

Verðtryggðar fjárskuldbindingar eru útbreiddar í íslensku hagkerfi, en þær eru allar tengdar við VNV. Þar af leiðandi hafa verðtryggðar skuldbindingar á borð við lán, leigusamninga, innlánsreikninga og ríkisbréf verið rangt upp gefnar frá því í mars.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .