Hagstofa Íslands og Hagfræðideild Háskóla Íslands hafa gert með sér samning með það að markmiði að auka samstarf á sviði rannsókna. Samningurinn var undirritaður í gær. Með samningnum gefst framhaldsnemendum við Hagfræðideild tækifæri til að vinna að mikilvægum rannsóknum á íslensku efnahagslífi í samstarfi við Hagstofuna og þannig auka við þekkingu sína, færni við meðferð gagna og reynslu af rannsóknarvinnu.

„Hlutverk Hagstofu Íslands og Háskóla Íslands fara um margt saman, en það er í báðum tilfellum að hluta til framsetning nýrra upplýsinga sem stuðlar að upplýstri umræðu og faglegri ákvarðanatöku. Sem hluta af þessu starfi safnar Hagstofan og heldur utan um gögn af ýmsu tagi. Innan Háskóla Íslands er síðan að finna efnislega og aðferðafræðilega þekkingu á því hvernig svara megi flóknum spurningum með aðstoð slíkra upplýsinga og búa til úr þeim þekkingu umfram það sem almennt kemur fram í hefðbundnum hagskýrslum og það sem Hagstofan hefur aðstöðu og mannskap til þess að vinna,“ segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands vegna samkomulagsins.

Þá er í tilkynningunni bent á að í lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð segir að Hagstofan skuli stuðla að því að gögn hennar nýtist í tölfræðilegum vísindarannsóknum. Vandi beggja þessara stofnana er sá að sérstöku fjármagni er ekki veitt til þessa þáttar starfseminnar eins og gert er víðast annars staðar í heiminum.