*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Innlent 7. júlí 2020 10:15

Hagstofan rekin með 21 milljónar halla

Rekstrarframmistaða Hagstofunnar versnaði um 126 milljónir króna milli áranna 2018 og 2019.

Ritstjórn
Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri
Birgir Ísl. Gunnarsson

Hagstofa Íslands var rekin með 20,8 milljóna króna halla árið 2019 en árið áður var 105 milljóna afgangur. Á vef Hagstofunnar segir að breytingin skýrist einkum af hagræðingarkröfu og lækkun sértekna auk hækkunar á nánast öllum útgjaldaliðum, þar sem verkefni sem frestuðust tímabundið árið áður fóru í fullan rekstur. 

Heildartekjur Hagstofunnar á síðasta ári námu 1.613 milljónum króna og drógust saman um 0,12% frá fyrra ári. Framlag úr ríkissjóði hækkaði um 49 milljónir og nam 1,43 milljörðum. Sértekjur Hagstofunnar námu 185 milljónum sem er 21,6% lækkun frá fyrra ári, sem stofnunin rekur til lægri tekna vegna styrkja.  

Heildargjöld jukust um 124 milljónir, eða um tæp 8%, á síðasta ári og námu um 1.634 milljónum króna með afskriftum. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 100 milljónir milli ára og námu 1.362 milljónum. Í lok árs 2019 störfuðu 118 fastráðnir starfsmenn hjá Hagstofunni í 111,45 fullum stöðugildum.

Húsnæðiskostnaður var um 108 milljónir árið 2019 og aðkeypt þjónusta nam 80 milljónum. Ólafur Hjámarsson er hagstofustjóri.