Hagstofa Íslands var rekin með 20,8 milljóna króna halla árið 2019 en árið áður var 105 milljóna afgangur. Á vef Hagstofunnar segir að breytingin skýrist einkum af hagræðingarkröfu og lækkun sértekna auk hækkunar á nánast öllum útgjaldaliðum, þar sem verkefni sem frestuðust tímabundið árið áður fóru í fullan rekstur.

Heildartekjur Hagstofunnar á síðasta ári námu 1.613 milljónum króna og drógust saman um 0,12% frá fyrra ári. Framlag úr ríkissjóði hækkaði um 49 milljónir og nam 1,43 milljörðum. Sértekjur Hagstofunnar námu 185 milljónum sem er 21,6% lækkun frá fyrra ári, sem stofnunin rekur til lægri tekna vegna styrkja.

Heildargjöld jukust um 124 milljónir, eða um tæp 8%, á síðasta ári og námu um 1.634 milljónum króna með afskriftum. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 100 milljónir milli ára og námu 1.362 milljónum. Í lok árs 2019 störfuðu 118 fastráðnir starfsmenn hjá Hagstofunni í 111,45 fullum stöðugildum.

Húsnæðiskostnaður var um 108 milljónir árið 2019 og aðkeypt þjónusta nam 80 milljónum. Ólafur Hjámarsson er hagstofustjóri.