Viðsnúningur var í rekstri Hagstofu Íslands á síðasta ári, en stofnunin hafði verið rekin með 5 milljón króna halla árið 2016 en var rekin með 43,8 milljóna króna afgangi í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri árskýrslu stofnunarinnar.

Heildartekjur Hagstofunnar námu rúmlega 1,4 milljarði króna, þar af nam framlag úr ríkissjóði um 1.254 milljónum, sem er tæplega 9% aukning milli ára. Sértekjur stofnunarinnar jukust svo um 1%, eða 1,7 milljónir króna og námu í heildina 152 milljónum króna.

Þar af nam seld þjónusta tæpum 47 milljónum, þjónustusamningur við kjararannsóknarnefnd 57 milljónum og samningur við kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna 14 milljónum. Loks námu styrkir frá erlendum aðilum 19 milljónum og sala hagskýrslna og aðrar tekjur 15 milljónum króna.

Af heildarútgjöldum stofnunarinnar nam launakostnaður rúmlega 1,1 milljarði, eða tæplega 84% allra útgjaldanna. Launaútgjöldin hækkuðu um rúmlega 6% á milli ára, vegna fjölgunar starfsmanna og kjarasamninga.

Húsnæðiskostnaðurinn nam 7,4% af heildarútgjöldum, eða ríflega 100 milljónum, aðkeypt þjónusta kostaði tæpar 62 milljónir, og ferðakostnaður, námskeið og fundir tæplega 31 milljón.