Hagstofa Íslands var rekin með 37,9 milljóna króna afgangi á síðasta ári, en ári fyrr skilaði hún 14,9 milljóna króna afgangi. Þetta kemur fram í ársskýrslu stofnunarinnar .

Þar segir að afgangur af rekstri skýrist alfarið af því að Hagstofan fékk 50 milljóna króna aukafjárveitingu í fjárlögum árið 2014, sem samþykkt voru 15. desember síðastliðinn.

Heildartekjur stofnunarinnar námu samtals 1.169 milljónum króna og jukust um 2% frá fyrra ári. Þar af nam framlag úr ríkissjóði 993 milljónum króna, en sértekjur námu 176 milljónum króna.

Heildargjöld voru 1.131 milljónir króna og voru óbreytt milli ára. Að teknu tilliti til launa- og verðlagsbreytinga lækkuðu útgjöld um tæplega 4% að raungildi milli ára. Af heildargjöldum nam launakostnaður 878 milljónum króna og húsnæðiskostnaður 108 milljónum króna.