Hagstofan spáir 8,2% meðalverðbólgu og 3,8% hagvexti í ár en bæði dragist svo mikið saman samkvæmt Þjóðhagsspá sem kom út í gær.

Strax á næsta ári býst Hagstofan við því að verðbólgan fari undir 5% að meðaltali samhliða hóflegri 2,7% hagvexti og árið 2025 sjá spámenn stofnunarinnar fyrir sér að búið verði að ná góðum böndum á verðbólguna sem verði 3% að meðaltali það árið.

Samsetningu hagvaxtar í ár verður þannig háttað samkvæmt Þjóðhagsspánni að vöxtur einkaneyslu hægist niður í 1,9% og samneysla vaxi um 2%, en atvinnuvegafjárfestingu er spáð 3,4% vexti. Loks er spáð viðskiptahalla upp á 1,6% landsframleiðslu í ár, sem fari svo minnkandi næstu árin.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út í morgun, 30. mars.