Hagvöxtur verður 2,7% á þessu ári og 2,5% á því næsta, samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem birt var í dag. Í spánni, sem nær til næstu fimm ára segir að á bak við hagvöxtinn liggi aukin einkaneysla og fjárfesting. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því að samneysla standi í stað frá þessu ári og fram til ársins 2014.

Hagspáin er aðeins svartsýnni en sú spá sem Seðlabankinn birti í Peningamálum í ágúst. Þar sagði m.a að þrátt fyrir lakari horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum hafi krafturinn í innlendum þjóðarbúskap reynst meiri en áður hafi verið reiknað með og talið að hagvöxtur verði rétt yfir 3%. Það var ½ prósentu meiri en í Peningamálum í maí.

Í þjóðhagspá Hagstofunnar segir ennfremur að vöxtur einkaneyslu og bati á vinnumarkaði hafi verið góður á fyrri helmingi þessa árs en slaknað nokkuð á þeim þriðja.

Verðbólguhorfur eru stöðugar en viðskiptakjör hafa á móti versnað lítillega. Fjárfesting eykst en er áfram lítil í sögulegu ljósi.

Þjóðhagsspá Hagstofunnar