Hagstofa Íslands hefur birt frétt á vef sínum þar sem hún hafnar staðhæfingu Samtaka atvinnulífsins um að launavísitalan sé röng. Segir Hagstofan að staðhæfingin byggi á samanburði milli tveggja mismunandi mælikvarða sem báðir eru hluti af talnaefni Hagstofunnar og segja hvor sína sögu um launabreytingar og hafi ólíkan tilgang.

Samtök Atvinnulífsins hafa haldið fram að Hagstofan ofmeti þær launabreytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá . Formaður ASÍ hefur tekið undir gagnrýnina og sagt boltann vera hjá ráðherra sem verði að tryggja að aðferðafræði Hagstofunnar við launarannsóknir verði breytt.

„Launavísitalan er einn mælikvarði á launabreytingar en hægt er að nota aðra mælikvarða eins og meðallaun líkt og SA gerir í málflutningi sínum. Við samanburð á mælikvörðum verður ætíð að hafa í huga að þeir segja ólíka sögu, hafa ólíkan tilgang og byggja á mismunandi aðferðum,“ segir á vef Hagstofunnar.

Ennfremur vísar Hagstofan til laga nr. 89/1989 sem segir að launavísitalan eigi að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma. Við framkvæmd mælinga hafi því verið stuðst við það sjónarmið löggjafans að um sé að ræða verðvísitölu þar sem vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki útreikningum er haldið föstum á milli mælinga.

Breyting meðallauna sýni hins vegar breytingar á launum miðað við samsetningu vinnuaflsins hverju sinni og endurspegli því bæði breytingar á launum, vinnutíma og vinnuafli auk þess sem gæði gagna aukist ár frá ári.Samanburður á þeim geti því einn og sér ekki skilað þeirri niðurstöðu að annar mælikvarðinn sé rangur. Sú niðurstaða verði einungis fengin með því að skoða hvort mælikvarði mæli það sem honum er ætlað.

„Meðallaun og launavísitala byggja á sömu gögnum sem fengin eru beint frá launagreiðendum. Um er að ræða nákvæmar og samræmdar upplýsingar sem ná til meirihluta vinnumarkaðarins. Gögnin gera Hagstofunni kleift að gefa út launavísitölu mánaðarlega og ítarlegar upplýsingar um meðallaun á ársgrundvelli. Á grundvelli samanburðar milli launavísitölu og meðallauna staðhæfir SA meðal annars að launabreytingar í þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörfum á árunum 2005–2016 séu ofmetnar um tugi prósenta í launavísitölunni. SA horfir alfarið framhjá ólíkum aðferðum. Aukið framboð af ódýrara vinnuafli í þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörfum lækka meðallaunin en áhrifin á launavísitöluna verða óveruleg. Til að launavísitalan lækki þurfa hinsvegar laun einstaklinga að lækka. Við mat á mælikvörðum skiptir öllu máli að hafa í huga hvað sé ætlunin að mæla í stað þess að láta mæligildin sjálf réttlæta mælikvarðann.“