Ekkert bendir til annars en að það sé hagkvæmt fyrir heilbrigðisyfirvöld að semja við einkaaðila um að veita heilsugæsluþjónustu þegar horft er til kostnaðar og gæða. Þetta kom meðal annars fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, þegar hann svaraði fyrirspurn frá Ástu Möller, Sjálfstæðisflokki, um rekstrarkostnað og gæði heilbrigðisþjónustu sem einkaaðilar sinna borið saman við opinbera aðila, að því er fram kemur á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins.

„Í þeim athugunum sem landlæknisembættið hefur staðið fyrir á undanförnum árum hefur ekki komið fram munur á gæðum heilbrigðisþjónustu, hvort sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu opinberra aðila eða einkaaðila, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Þess ber þó að geta að kannanir landlæknisembættisins hafa enn sem komið er fyrst og fremst beinst að hverri stofnun fyrir sig fremur en samanburði við aðra aðila á sama starfssviði. Viðhorfskannanir sem gerðar hafa verið meðal notenda heilsugæslunnar benda til þess að þeir séu almennt ánægðir með þjónustuna og enn frekar með þjónustu sem veitt er af einkaaðilum,“ segir heilbrigðisráðherra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .