Á sama tíma og fjármálaráðherrar G-8 ríkjanna hvöttu Kínverja til að auka sveigjanleika í gjaldeyrismálum sínum á fundi iðnríkjanna um nýliðna helgi, birtu kínversk yfirvöld nýjar tölur þar sem fram kemur að hagstæður viðskiptajöfnuður Kínverja við umheiminn heldur áfram að aukast. Á síðasta ári tvöfaldaðist hann næstum því og var samtals 177 milljarðar Bandaríkjadala, en á þessu ári er búist við því að hann fari upp fyrir tvö hundruð milljarða dollara.

Hagstæður viðskiptajöfnuður Kínverja í síðasta mánuði var samtals 15,9 milljarðar Bandaríkjadala, samanborið við 9,6 milljarða dollara árið 2006. Útflutningsverðmæti kínversks varnings hækkaði um 33% í mánuðinum, en innflutningur Kínverja jókst hins vegar um 27,5%.

Þrátt fyrir að hagtölur í janúar og febrúarmánuði gefi oft ekki rétta mynd af efnahagsþróuninni í Kína sökum þess að nýtt ár gengur í garð á þeim tíma, þá benda hagfræðingar samt á að vöxtur í utanríkisverslun Kínverja sé engu að síður meiri heldur en búist hafði verið við.

Þessi gríðarmikli hagstæði viðskitptajöfnuður Kínverja er að hluta til talin eiga sér skýringa vegna handstýringu kínverska seðlabankans á gengi júansins. Bandarísk stjórnvöld hafa einkum gagnrýnt Kínverja fyrir að láta ekki gengi júansins fljóta, en flestir sérfræðingar eru sammála um að slíkt myndi að einhverju marki rétta af hinn mikla halla sem er á viðskiptum Bandaríkjanna við Kínverja. Frá því í júlí árið 2005 hefur gengi Bandaríkjadals gagnvart júaninum veikst um 7%.