Landsframleiðsla dróst saman um 0,5% á milli ára í Þýskalandi á fjórða og síðasta fjórðungi nýliðins árs. Þetta er meiri samdráttur en spár hljóðuðu upp á. Meðalspá Reuters-fréttastofunnar fyrir allt síðasta ár hljóðaði upp á 0,8% hagvöxt. Niðurstaðan er hins vegar 0,1% undir væntingum. Þá er samdrátturinn talsverður á milli ára en hagvöxtur í Þýskalandi mældist 3,0% árið 2011.

Reuters-fréttastofan segir skuldakreppuna á evrusvæðinu hafa sett skarð í landsframleiðslu Þjóðverja enda fjárfestingar og útflutningur dregist mikið saman. Útflutningur jókst um 4,1% á milli ára í fyrra samanborið við 7,8% árið 2011.

Haft er eftir Carsten Brzeski, hagfræðingi hjá ING, að ljóst sé af döprum hagtölum á seinni hluta síðasta árs að Þýskaland sé ekkert eyland lengur á evrusvæðinu.