Arion banki á nokkuð undir því að fasteignafélagið SMI ehf fylgi með í sameiningu Eikar fasteignafélags við annað félag. Bankinn á 39% hlut í SMI auk þess að eiga 100% hlut í Landfestum. Eins og VB.is greindi frá í morgun hefur bankinn farið þess á leit við stjórn Eikar að fram fari könnunarviðræður við Landfestar um samruna félaganna. Viðræðurnar fara þvert á yfirtökutilboð fasteignafélagsins Regins til hluthafa Eikar sem lagt var fram í byrjun mánaðar.

Fasteignir SMI eru undanskildar tilboði Regins. Það hljóðar upp á rúma átta milljarða króna og rennur það út á föstudag í þessari viku. Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sagði í samtali við VB Sjónvarp í byrjun mánaðar ástæðu þess að SMI er ekki inni í tilboðinu þá að eignirnar henti ekki sameiginlegu félagi.

SMI á m.a. Turninn í Kópavogi, Korputorg, Glerártorg á Akureyri og nokkrar eignir til viðbótar.

Hverjir eiga hvað?

Auk þess sem Arion banki á 39% hlut í SMI ehf þá á LBI, eða þrotabú gamla Landsbankans, 35% hlut í fasteignafélaginu samkvæmt síðasta birta ársreikningi fyrir árið 2011. Jákup á Dul Jacobsen, stofnandi Rúmfatalagersins, á 18% hlut á móti bönkunum.

Lífeyrissjóðir og sjóðir í eigu banka eru á meðal 10 helstu hluthafar Regins. Þar er Lífeyrissjóður verslunarmanna stærstur með 12,26% hlut. Á eftir honum koma Gildi lífeyrissjóður, sjóðir Stefnis, sem eru í eigu dótturfélags Arion banka, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Straumur fjárfestingarbanki, auk Landsbankans, sem er 3,15% hlut.

Um síðustu áramót voru hluthafar Eik fasteignafélags 30 talsins. Þrír hlutahafar áttu samkvæmt ársreikningi meira en 10% í félaginu, þ.e. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins átti 14,8%, Almenni lífeyrissjóðurinn 13,7% og Lífeyrissjóður verkfræðinga 13,2%.