Finnski farsímaframleiðandinn Nokia greindi frá því í gær að félagið hefði hækkað afkomuáætlun sína fyrir annan ársfjórðung. Fyrirtækið segist búast við því að viðhalda þeirri markaðshlutdeild á heimsvísu sem því tókst að bæta við á fyrsta ársfjórðungi þegar hún jókst í 36%, en markmið Nokia fyrir árið 2007 er að auka markaðshlutdeild sína upp í samtals 40%.

Í samtali við Dow Jones fréttastofuna sagði Thomas Langer, sérfræðingur hjá WestLB, að þessi tilkynning Nokia kæmi mjög á óvart. "Það væri vægast sagt ótrúlegt að félagið þyrði að birta slíkar jákvæðar fréttir jafn snemma á öðrum ársfjórðungi". Gengi bréfa í Nokia hækkaði um 5% í kauphöllinni í Helsinki í dag eftir félagið sendi frá sér hina endurskoðuðu afkomuáætlun.