Algjör viðsnúningur er kominn á rekstur danska skartgripafyrirtækisins Pandoru. Uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung leit ljómandi vel út og velgengnin hélt áfram á öðrum fjórðungi, eftir því sem fram kemur á danska viðskiptavefnum epn.dk. Endanlegt hálfsársuppgjör verður þó ekki tilbúið fyrr en eftir hálfan mánuð. Búist er við því að velta fyrirtækisins verði átta milljarðar danskra króna í árslok.. Það jafngildir rúmum 160 milljörðum íslenskra  króna.

Aukin velta er fyrst og fremst vegna þess að markaðssetning á nýjum vörum frá fyrirtækinu hefur tekist vel, segir í tilkynningu. Hlutabréf í Pandoru hækkuðu um þrjú prósent í morgun. Þau voru komin upp fyrir 220 danskar krónur, eða um 4500 íslenskar krónur.

Fram hefur komið að seljendalán sem Seðlabanki Íslands veitti kaupendum danska FIH bankans árið 2010 er að hluta til bundið við gengi Pandóru, eða raunar fjárfestingasjóðsins Axcel sem er stærsti eigandi Pandoru. Seðlabankinn á því töluverðra hagsmuna að gæta að Pandoru gangi vel.