Framlegð sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur aukist nokkuð frá því að kreppan hófst hér árið 2008 og gengi krónunnar tók að gefa eftir.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag.

„Þannig var EBITDA framlegð í fiskveiðum og vinnslu 31,0% árið 2009 en 27,4% árið 2008 og 19,5% árið 2007. Mest hefur breytingin orðið í fiskvinnslu en á þessum tíma, þ.e. frá 2007 til 2009, fór framlegðin í þeirri grein úr 7,0% í 20,8%. Í fiskveiðum var breytingin minni, eða úr 21,5% árið 2007 í 26,3% árið 2009,“ segir í Morgunkorni.

Lágt raungengi krónunnar kemur íslenskum sjávarútvegi, líkt og öðrum útflutningsatvinnugeirum landsins, afar vel þegar litið er til arðsemi og samkeppnisstöðu. Raungengi krónunnar miðað við laun var 42% lægra á árinu 2009 en það var á árinu 2007.

„Þá var verðvísitala sjávarafurða, sem mælir verð á íslenskum sjávarafurðum í krónum, 72% hærri á árinu 2009 en hún var á árinu 2007. Skýrist hækkunin aðallega af breytingum í gengi krónunnar en 97% meira fékkst fyrir hverja evru í krónum talið á árið 2009 en 2007 og 51% meira fékkst fyrir hvert pund en fyrir meirihluta útfluttra íslenskra sjávarafurða færst greitt í þessum tveim myntum.

Þó að gengisfall krónunnar hafi haft jákvæð áhrif á arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja hafði hún verulega neikvæð áhrif á efnahagsreikninga félaganna þar sem skuldir greinarinnar voru og eru fyrst og fremst í erlendum myntum. Þannig voru heildarskuldir greinarinnar 336 ma.kr. í árslok 2007 en ríflega 564 ma.kr. ári síðar. Eiginfjárstaða fyrirtækja í greininni fór á þessum tíma úr því að vera jákvæð um 110 ma.kr. í að vera neikvæð um tæplega 60 ma.kr. Á milli áranna 2008 og 2009 hefur náðst að rétta hag greinarinnar nokkuð hvað þetta varðar enda arðsemin góð. Þannig var eigið fé greinarinnar komið í 26,5 ma.kr. og þar með aftur orðið jákvætt í árslok 2009. Eiginfjárhlutfallið var þá komið í 4,5% en fór í -11,9% árið 2008 eftir að hafa staðið í 24,6% í árslok 2007. Reikna má með því að eiginfjárhlutfallið hafi hækkað enn meira síðan þá.

Misræmi í gjaldmiðlasamsetningu

Á heildina litið er ljóst að gengisfall krónunnar hefur haft gagnstæð áhrif á rekstrarreikning og efnahagsreikning sjávarútvegsfyrirtækja. Jafnframt er um töluvert misræmi að ræða í gjaldmiðlasamsetningu tekna og skulda sjávarútvegsfyrirtækja, sem telja má afar líklegt að hafi valdið enn frekari erfiðleikum fyrir rekstur þeirra. Þannig er um 95% lána sjávararútvegsfyrirtækja gengisbundin og um helmingur þeirra lána var tekinn í lágvaxtagjaldmiðlum, þ.e. svissneskum frönkum eða japönskum jenum, á meðan fjórðungur eru í evrum. Á hinn bóginn er mjög lítill hluti útflutningstekna þeirra í jenum eða frönkum á meðan um 40% af útflutningi sjávarafurða er í evrum, fjórðungur í breskum pundum og rúmlega fimmtungur í Bandaríkjadölum.“