*

föstudagur, 6. desember 2019
Innlent 16. maí 2019 16:21

Hagur Sjóvá vænkast

Sjóvá áætlar að afkoma ársins verði fjórðungi betri en áður var áætlað. Einkum vegna góðrar ávöxtunar á skráðum hlutabréfum.

Ritstjórn
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.
Haraldur Guðjónsson

Sjóvá áætlar að hagnaður ársins fyrir skatta muni nema 4,2 milljörðum króna á þessu ári. Félagið hafði áður búist við 3,3 milljarða hagnaði og því hækkar afkomuspáin um 27%. Ástæðan er einkum sögð vera vegna góð afkom af skráðum hlutabréfum. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjör Sjóvá fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs.

Þar segir jafnframt að félagið búist við að samsett hlutfall félagsins næstu 12 mánuði (1. apríl 2019-31. mars 2020) verði um 95% og hagnaður fyrir skatta um 3,8 milljarðar króna.

Hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi nam 1,05 milljörðum króna og hækkar um 41% milli ára. Samsett hlutfall var 98,1% miðað við 97,2% fyrir ári. Þá var hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 411 milljónir króna miðað við 396 milljónir á sama tímabili árið 2018. Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 769 milljónum króna en var 422 milljónir króna fyrir ári. 

„Niðurstaðan er afar ánægjuleg hvort sem litið er til vátryggingarekstrar eða fjárfestinga. Eigin iðgjöld vaxa um 13% frá 2018 eftir að hafa vaxið um 10% frá fyrsta fjórðungi 2017. Þessi sterki vöxtur undangengin ár hefur stuðlað að sífellt bættum vátryggingarekstri með lægra kostnaðarhlutfalli og bættu samsettu hlutfalli. Þó samsett hlutfall sé nú að vaxa lítillega á milli 1F 2018 og 1F 2019 úr 97,2% í 98,1% þá reiknum við með að birtar horfur okkar um 95% samsett hlutfall gangi eftir. Á sveiflukenndum fjárfestingamörkuðum hefur það verið yfirlýst markmið okkar að byggja ekki afkomuna um of á þeim heldur að skila jákvæðri afkomu af vátryggingastarfsemi og það hefur okkur tekist undanfarna 12 fjórðunga sem verður að teljast afar jákvætt og til marks um styrkan og sjálfbæran grunnrekstur. Afkoma ökutækja er stöðugt til skoðunar og hreyfast þeir mælikvarðar í jákvæða átt þó ekki séu þeir komnir á ásættanlegan stað,“ er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvá í tilkynningu.

Stikkorð: Sjóvá