Hagur stærstu sveitarfélaga landsins hefur batnað verulega undanfarin ár en þau voru flest í þröngri stöðu í kjölfar efnahagshrunsins. Árið 2013 var helmingur af sex stærstu sveitarfélögum landsins yfir skuldaviðmiðum eftirlitsnefndar sveitarfélaga en nú er einungis eitt sveitarfélaganna eftir, Reykjanesbær. Þá hefur afkoma sveitarfélaganna farið batnandi. Sveitarfélögin sex, sem 70%  Íslendingar  búa í, skiluðu öll afgangi á síðasta ári sem er í fyrsta sinn á síðustu fimm árum sem það gerist. Samanlagður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélaganna sex nam 34,5 milljörðum króna í fyrra sem er þrefalt hærri afgangur en bæði árin 2013 og 2014. Undir A-hluta fellur rekstur aðalsjóðs sveitarfélagsins sem að mestu er fjármagnaður af  skatttekjum og lögbundin starfsemi en undir B-hluta falla stofnanir og fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins.

Samanlagðar tekjur sex stærstu sveitarfélaganna jukust um 9,6% í fyrra og hafa aukist um 26% frá árinu 2013. Tekjurnar námu 288 milljörðum króna í fyrra. Íslandsbanki bendir á í nýlegri skýrslu sinni um fjármál allra sveitarfélaga landsins að fjárhagur þeirra fari batnandi og skuldir sveitarfélaganna fari lækkandi. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka standa 97% sveitarfélaga undir núverandi rekstri og skuldsetningu. „Staða sveitarfélaganna hefur verið að batna undanfarið. Við erum að sjá jákvæðar rekstrarniðurstöður ár eftir ár,“ segir Bergþóra Baldursdóttir, sérfræðingur í samskiptum og greiningu hjá Íslandsbanka og einn af höfundum skýrslunnar.

Sé afkoma sveitarfélaganna reiknuð niður á hvern íbúa sést að Reykjavíkurborg hefur skilað hæstum afgangi í fyrra.

Alls skilaði  A- og B-hluti Reykjavíkurborgar 28 milljarða afgangi í fyrra. Það skýrist að stórum hluta af hækkandi  fasteignaverði  íbúða í eigu Félagsbústaða, sem skilaði 7,5 milljarða hagnaði í fyrra og 16,3 milljarða króna hagnaði Orkuveitu Reykjavíkur. Um helmingur hagnaðar Orkuveitu Reykjavíkur var tilkominn vegna reiknaðra framtíðartekna af rafmagnssölu sem tengd er  álverði, en álverð hækkaði á síðasta ári.

Það sveitarfélag sem staðið hefur verst, Reykjanesbær, náði samkomulagi undir lok síðasta árs og byrjun þessa árs um endurfjármögnun og  uppgreiðslu  skulda. Lán frá Lánasjóði sveitarfélaganna var nýtt til að greiða upp langtímaskuldir Reykjaneshafnar aðrar en frá Lánasjóði sveitarfélaganna. Markmið Reykjanesbæjar er að koma skuldaviðmiðinu undir 150% í árslok 2022. Skuldahlutfallið stóð í 255% árið 2013 en hafði lækkað í 186% í árslok 2017.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .