Skuldir stærstu sveitarfélaga lækkuðu í krónum talið í fyrsta skipti í fjögur ár á síðasta ári. Lækkandi skuldir sveitarfélaga munu auka svigrúm þeirra til fjárfestinga, sem hafa verið litlar á seinustu tíu árum. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV.

Í úttekt frá greiningardeild Arion banka kemur fram að skuldastaða flestra íslenskra sveitarfélaga fari lækkandi. 94% landsmanna búa í 27 stærstu sveitarfélögunum.

„Fjárfestingarnar hafa verið mjög litlar á undanförnum árum og sveitarfélögin hafa verið að halda að sér höndunum og reyna að lækka skuldastöðuna sem að hefur verið að gerast hjá þeim sem hefur verið mjög jákvætt," segir Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka. Hún vonast til þess að vænkandi hagur sveitarfélaganna geti orðið til þess að þau geti lagt aukinn þunga á fjárfestingar að nýju.