Eftir mikla skuldsetningu sveitarfélaganna fyrir og eftir hrun ásamt hækkunum útsvars upp í hámark hjá fjölmörgum fór verulega að þrengja að fjárhag flestra sveitarfélaga í kjölfar kjarasamninganna árið 2014.

Í kjölfar lagasetningu um fjárhagslegt viðmið sveitarfélaga árið 2012 sjást þó skýr merki um að sveitarfélögin hafi farið að reyna að koma á jafnvægi í rekstri sínum og greiða niður skuldir að því er fram kemur í yfirliti sem greining Arion banka hefur tekið saman yfir fjárhagsstöðu 28 stærstu sveitarfélaganna.

Fyrstu merki um að taflið væri þó að snúast við fyrir alvöru kom eftir að þau þrjú stærstu birtu árshelmingsuppgjör sitt árið 2016 en síðan þá hafa tekjur Reykjavíkur, Kópavogs og Hafnarfjarðar haldið áfram að aukast umfram útgjöld.

Ef miðað er við fast verðlag jukust tekjur þeirra aukist að jafnaði um 7,6% meðan gjöldin jukust um 6,2% á fyrri árshelmingi þessa árs. Varð framlegðarhlutfall þeirra um og yfir 15% hærra en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, en sögulega séð fellur stærri hluti tekna á seinni hluti ársins meðan stærri hluti útgjalda fellur til á fyrri hluta ársins.

Hvorki Reykjavík né Hafnarfjörður hafa þó náð að uppfylla lagaskyldu um skuldahlutfall undir 150%, þó bæði hafi minnkað það um 25 prósentustig á síðasta ári.

Stendur skuldahlutfall Reykjavíkurborgar því nú í 154% en í 157% í Hafnarfirði, en á sama tíma fór Kópavogur undir 150%, eða úr 161% niður í 140%. Opinbera viðmiðið er þó annað en viðmið Arion banka, og eru öll sveitarfélögin undir því vegna frádráttar skulda Orkuveitu Reykjavíkur við útreikningana.

Ef öll sveitarfélög landsins eru þó tekin sem heild hefur skuldahlutfallið frá árinu 2013 farið úr að meðaltali 118% niður í 91%.