Xavier Govare, forstjóri íslensku fiskframleiðslusamsteypunnar Alfesca (fyrrum SÍF), kynnti framtíðarplön fyrirtækisins ásamt framkvæmdastjórum sjö dótturfélaga þess á fundi á Grand Hotel í gær. Þar kom fram að hart hefur verið gengið fram í endurskipulagningu rekstrar samsteypunnar og víða farið í aðhaldsaðgerðir til að mæta háu hráefnisverði.

Forstjórinn telur að fréttir frá Noregi um verulega verðlækkun á laxi lofi góðu varðandi framhaldið. Enda eru dótturfélögin Labeyrie, Delpierre og Vensy stórir kaupendur á laxi til vinnslu. Telur Xavier þetta mikilvæg tíðindi fyrir jólasölutímabilið sem framundan er.

Verð á laxi til vinnslu hafi hækkað á síðasta fjárhagsári sem lauk 30. júní um 60% og um 114% frá byrjun árs 2005. Það hafði veruleg áhrif á afkomu flestra dótturfélaganna sem eru stórtæk í sölu á reyktum laxi. Var reynt að mæta þessu með margvíslegri hagræðingu í rekstri.

Hluti aðhaldsaðgerða var að losa sig við frystivörudeild Delpierre (áður SIF France) í Frakklandi þann 13. júlí en kaupandi var Icelandic Group. Virðist þessi deild hafa verið mikill dragbítur á Delpierre og heildartap hennar nam 7,1 milljón evra og hreint rekstratap 3,9 milljónum evra. Vonast stjórnendur Alfesca til að sala frystideildarinnar komi til með að bæta afkomuna verulega til lengri tíma litið.

Heildartekjur Alfesca á síðasta fjárhagsári voru tæplega 555 milljónir evra eða sem nemur um 49 milljörðum króna.
Nettó hagnaður af rekstri nam um 19 milljónum evra, eða tæplega 1,7 milljörðum króna á móti 9,6 milljóna evra tapi árið áður.

Eignir samsteypunnar eru metnar á rúmar 624 milljónir evra eða rúmlega 55 milljarða króna. Eigið fé var rúmlega 269 milljónir evra, eða tæpir 24 milljarðar króna og eigiðfjárhlutfall við lok reikningsársins var 43,1%.

Xavier Govare segir að stefna Alfesca sé að vera leiðandi í sölu á tilbúnum hágæða sjávarréttum á Evrópumarkaði sem og á svæðisbundnum sérvörum. Stefnt er að því að auka sölu á vörum undir eigin merkjum fyrirtækja Alfesca samhliða aukinni sölu til smásöluverslana sem selja undir eigin vörumerki.

Alfesca er markaðsleiðandi fyrirtæki á sínu sviði og með sterka markaðsstöðu í sjö Evrópulöndum; Bretlandi, Frakklandi, Spáni, Lúxemborg, Sviss, Belgíu og á Ítalíu. Selur fyrirtækið vörur sínar til meira en 40 landa um allan heim.

Í Frakklandi eru þrjú af dótturfyrirtækjum samsteypunnar starfrækt, þ.e. Labeyrie, sem fagnar 60 ára afmæli á þessu ári, Delpierre og Blini. Á Spáni er það Vensy og í Bretlandi er Lyons Seafoods og Farne. Þá kemur Christiansen Partner í Noregi.

Öll þessi fyrirtæki framleiða undir eigin nafni nema Vensy á Spáni sem framleiðir undir vörumerkinu Skandia og norska fyrirtækið Christiansen Partner í sem einkum í sölu á eldislaxi, saltfiski og síld. Þá er Labeyrie með tvö önnur vörumerki auk eigin nafns, þ.e. Pierre og Guéracague.

Xavier bendir á að söluaukning á vörum fyrirtækjasamsteypunnar hafi verið umtalsverð á síðasta fjárhagsári. Í Frakklandi jókst salan um 3%, um 19% í Bretlandi og um 5% á Spáni.

Stærstu einstöku hluthafar í Alfesca eru Fjárfestingafélagið Vending ehf. með 34.13% hlut og Kaupþing banki hf. með 27.82% hlut. Stjórnarformaður Alfesca er Ólafur Ólafsson.