Hagvangur og Attentus – mannauður og ráðgjöf hafa skrifað undir samstarfssamning á sviði ráðninga- og mannauðsráðgjafar, í því augnamiði að bjóða upp á heildarlausn fyrir viðskiptavini á sviði mannauðsstjórnunar.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Katrín S. Óladóttir og Þórir Þorvarðarson hjá Hagvangi, Árný Elíasdóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir eigendur Attentus, undirrituðu samstarfssamning í dag.

Hagvangur er eitt elsta ráðgjafarfyrirtæki landsins og sérhæfir sig í ráðningaþjónustu og ráðgjöf á sviði ráðninga. Attentus er ársgamalt félag sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði mannauðsstjórnunar.

„Eigendur Attentus hafa áralanga og yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af stjórnun starfsmannamála, fræðslu, jafnréttismálum, kjara- og vinnurétti. Starfssvið fyrirtækjanna eru nátengd og þau tengsl skapa forsendur og markmið þessa samstarfssamnings, segir í tilkynningunni.

Samkvæmt tilkynningunni er ætlunin að efla starfsemi Attentus og Hagvangs með gagnkvæmu samstarfi, þannig að viðskiptavinum þeirra bjóðist heildstæð þjónusta á sviði ráðninga- og mannauðsstjórnunar.