Hagvangur hefur sett á laggirnar nýja þjónustu sem ber heitið Siðferðisgáttin. Með þessari nýju þjónustu gefst starfsmönnum fyrirtækja og stofnanna tækifæri á að koma á framfæri beint til óháðs teymis innan Hagvangs ef þeir verða fyrir óæskilegri háttsemi á vinnustað. Hagvangur mun starfa að slíkum málum sem óháður ráðgjafaraðili í samstarfi við stjórn fyrirtækja. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

,,Siðferðisgáttinni er ætlað að styrkja stoðir góðrar vinnustaðarmenningar. Markmið siðferðisgáttarinnar er að skapa fyrirtækjum og stofnunum farveg til þess að takast á við erfið mál tengdum óæskilegri hegðun meðal starfsmanna.  Siðferðisgáttin virkar þannig að stjórn fyrirtækja og stofnanna gerir samning við Hagvang um að starfrækja Siðferðisgáttina á viðkomandi starfsstað. Allir starfsmenn, óháð stöðu, geta þar með komið á framfæri til óháðra aðila ef þeir verða fyrir óæskilega hegðun og fer málið þar með strax í faglegan farveg. Siðferðisgáttin á því að styðja við bakið á öflugu mannauðsstarfi fyrirtækja og stofnana með það að leiðarljósi að efla vellíðan á vinnustað," segir Gyða Kristjánsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi.

Sérhæft ráðgjafateymi innan Hagvangs mun annast þau mál sem koma upp í gegnum Siðferðargáttina og er fyllsta trúnaðar gætt á milli ráðgjafateymisins og viðkomandi aðila að sögn Gyðu.

,,Með Siðferðisgáttinni viljum við leggja okkar að mörkum við að aðstoða atvinnulífið og samfélagið í heild að uppræta óæskilega háttsemi inná vinnustöðum. Það er að okkar mati lykilatriði að ráðast að rót vandans. Með því að nýta Siðferðisgáttina sem óháðan þriðja aðila er tryggt að betri og dýpri upplýsingar fáist frá málsaðilum. Teymi Siðferðisgáttarinnar er skipað sérfræðingum á sviðum mannauðsmála, sálfræðinga, lögfræðinga og viðurkenndra þjónustuaðila í vinnuvernd. Fullt samstarf verður við tengilið fyrirtækis sem skipaður er af stjórn þess. Okkar von er sú að með Siðferðisgáttinni getum við aðstoðað fyrirtæki og stofnanir að gera sitt mannauðsstarf enn betra og uppræta framkomu og hegðun sem hvergi á rétt á sér," segir Gyða.

Gyða segir að það sé alltaf betra að svona mál fari strax í þann farveg sem nauðsynlegt sé svo aðstæður verði ekki enn verri með tilheyrandi hættu á fjárhagslegu tapi, slæmu orðspori og lögsóknum. ,,Það að fyrirtæki fái snemma að vita af óæskilegri háttsemi styttir tímann sem málið stendur yfir. Það mun vissulega geta leyst mörg mál að óháður utanaðkomandi aðili komi strax að málinu í nánu samstarfi við fyrirtæki og aðgerðaráætlun þeirra í slíkum málum."