Búist er við að vöxtur landsframleiðslu verði 0,5% í Frakklandi í ár, en ekki 1% líkt og fyrri spár gerðu ráð fyrir. Forsætisráðherra landsins tilkynnti um breytta spá í dag. Hann sagði nauðsynlegt að taka efnahagshorfur í Evrópu með í reikninginn.

Ný hagvaxtarspá í Frakklandi kemur á sama tíma og leiðtogar Evrópuríkja hittast í Brussel til þess að ræða skuldavanda evruríkjanna. Í frétt BBC segir að búist sé við að einblínt verði á hagvöxt og atvinnusköpun í ríkjunum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lækkaði hagspá fyrir nokkur Evrópuríki í síðustu viku, þar á meðal Frakklands. Samkvæmt þeirri spá verður hagvöxtur á þessu ári aðeins 0,2% í Frakklandi. Hagkerfi Frakklands er hið annað stærsta á evrusvæðinu.