Alþjóðlegur hagvöxtur verður 4,4% á árinu samkvæmt janúarriti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu heimshagkerfisins. Verðbólga í þróuðum ríkjum verður 3,9% á árinu að meðaltali, en 5,9% í þróunarríkjum, að því er kemur fram í skýrslunni.

Hagvaxtarhorfur hafa versnað töluvert frá fyrri spám, en í októberriti AGS var gert ráð fyrir 4,9% hagvexti árið 2022. Sjóðurinn segir að versnandi hagvaxtarhorfur megi að miklu leyti rekja til væntanlegra vaxtahækkana í Bandaríkjunum annars vegar og minnkandi einkaneyslu og viðkvæmrar stöðu fasteignamarkaðarins í Kína hins vegar. Hagvöxtur í heimshagkerfinu var 5,9% árið 2021 en AGS spáir 3,8% hagvexti árið 2023.

Versnandi horfur í flestum ríkjum

Ört hækkandi orkuverð í heiminum, sérstaklega í Bretlandi og í Evrópu, og framboðstruflanir í heimshagkerfinu hafa valdið mikilli og þrálátri verðbólgu út um allan heim. Sjóðurinn gerir ráð fyrir áframhaldandi hækkun á orkuverði á árinu og gerir einnig ráð fyrir frekari truflunum á framboði vegna flöskuhálsa í virðiskeðjum í heimshagkerfinu. Sjóðurinn bendir á að væntanlegar vaxtahækkanir ofan á ört hækkandi skuldir landa á undanförnum tveimur árum geti ógnað fjármálastöðugleika.

Sjóðurinn spáir 4% hagvexti í Bandaríkjunum á árinu, en sjóðurinn spáði í októberritinu að hagvöxturinn yrði 5,2%. Svipaða sögu má segja um flest önnur ríki. Á evrusvæðinu er áætlaður 3,9% hagvöxtur í stað 4,3%, en þar af versna hagvaxtarhorfur Þýskalands úr 4,6% í 3,8%. Sjóðurinn spáir jafnframt 4,7% hagvexti í Bretlandi í stað 5%.