Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) spáir nú 4,5% hagsamdrætti á heimsvísu í ár, í stað 6% eins og spáð var í júní. Eftir samdrátt ársins er 5% hagvexti spáð á næsta ári. Þetta kemur fram í nýrri hagvaxtarskýrslu stofnunarinnar .

Þrátt fyrir bjartsýnni spá en áður er efnahagsáfallið sagt „fordæmalaust í náinni fortíð“.

Þótt spáin sé heilt yfir nokkuð betri en í júní er munurinn heldur ójafn milli landa. Bandaríkjunum er nú spáð 3,8% samdrætti í stað 7,3% áður, evrusvæðinu 7,9% í stað 9,1% og Bretlandi 10,1% í stað 11,5%. Indlandi er nú spáð 10,2% samdrætti í stað 3,7% áður, og Suður-Afríku 11,5% í stað 7,5%, sem er mesti skellur meðal þeirra landa sem spáð er um.

Á næsta ári er Bandaríkjunum spáð 4% hagvexti í stað 4,1%, evrusvæðinu 5,1% í stað 6,5%, og Bretlandi 7,6% í stað 9%. Fram kemur í skýrslunni að snögg og áhrifarík viðbrögð allra ríkja sem um ræðir hafi forðað því að ekki fór mun verr.