Leiðandi hagvaxtarvísitala Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) gefur til kynna að hagvöxtur fari minnkandi á meðal aðildarríkja OECD. Samkvæmt hagvísum síðastliðinn september þá hafa efnahagshorfur versnað hjá öllum stóru iðnríkjunum sjö – nema Kanada.

Aðra sögu er að hins vegar segja af stærstu efnahagsveldum heimsins, sem ekki eiga aðild að OECD: Nýjustu hagtölur benda til að ekkert lát verði á hinum gríðarmikla hagvexti í Kína, Indlandi og Brasilíu. Þrátt fyrir að efnahagshorfur í Rússlandi sé ekki jafn góðar og hjá hinum BRIC-ríkjunum, þá bendir flest til þess að hagvxötur þar í landi muni haldast svipaður og á undanförnum árum.

Hagvaxtarvísitalan fyrir aðildarríki OECD lækkaði um 0,8 stig í september – frá því í ágúst - og er 1,5 stigum lægri heldur en á sama tíma fyrir ári. Í Bandaríkjunum dróst vísitalan saman um 0,6 stig og er aðeins 0,1 stigi hærri heldur en fyrir ári. Á evrusvæðinu lækkaði vísitalan um 0,5 stig og er gildi hennar 1,8 stigum lægri en fyrir ári. Efnahagshorfur í Japan hafa versnað til muna á milli ára; vísitalan í september lækkaði um 2,9 stig og mælist 9 stigum lægri heldur en árið 2006. Á Bretlandi lækkaði vísitalan um 0,1 stig í september, en er engu að síður 0,4 stigum hærri heldur en á sama tíma fyrir ári.

Margir spá því að minnkandi eftirspurn í Bandaríkjunum samhliða yfirvofandi niðursveiflu á fasteignamarkaðnum vestanhafs, eigi eftir að hafa takmörkuð áhrif fyrir hagvöxt helstu nýmarkaðsríkja í alþjóðahagkerfinu. Leiðandi hagvaxtarvísitala OECD virðist renna stoðum undir þá skoðun: Í Kína hækkaði vísitalan um 0,4 stig í september og er 3,8 stigum hærri heldur en fyrir ári. Aukningin er ekki jafn mikil í indverska hagkerfinu, enda þótt vísitalan hafi aukist um 0,2 stig í september og sé 1,7 stigum hærri en fyrir. Í Rússlandi stóð vísitalan í stað í september og var jafnframt 1,9 stigum lægri heldur en árið 2006.