Nýjustu mælingar á leiðandi hagvaxtarvísitölu OECD benda til þess að horfur hafi versnað í sjö stærstu hagkerfum aðildarríkja stofnunarinnar. Mælingar á löndum sem standa utan OECD sýna helst hættu á niðursveiflu í löndunum Brasilíu, Kína og Indlandi, en búist er við áframhaldandi kraftmiklum hagvexti í Rússlandi.

Vísitalan fyrir allt OECD-svæðið féll um hálft stig í mars og um 3,2 stig frá því í mars á síðasta ári. Vísitalan fyrir Bandaríkin eins og sér féll um 0,9 stig og er 3,6 stigum lægri en fyrir ári síðan.

Leiðandi hagvaxtarvísitala fyrir evrusvæðið féll um 0,7 stig og er 3,3 stigum lægri en fyrir ári.  Í Bretlandi var lækkunin 0,7 stig og í Japan 0,4 stig, en í síðastnefnda landinu hefur vísitalan lækkað um 4,3 stig á einu ári.